fbpx

Örugg borg

Heim / / Örugg borg

Örugg borg

Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) er alþjóðlegt verkefni UN Women sem miðar að því að skapa konum og börnum víða um heim öruggt líf án ótta við ofbeldi. Á Íslandi var átakinu hrint af stað í nóvember 2014 með herferð sem vakti mikla athygli. Á vef her­ferðar­inn­ar mátti sjá nokkur myndbönd sem sýndu dæmi um kyn­ferðis­lega áreitni sem kon­ur verða gjarnan fyr­ir í Reykja­vík. Jafn­framt var hægt að tengja síðuna við snjallsíma og sjá atburðarásina bæði frá sjónarhorni þolanda og ger­anda. Helgina sem átakið fór fram var myndbandinu varpað á hús Héraðsdóms í miðborg Reykjavíkur eftir myrkur og spilað alla nóttina eða til klukkan níu á morgnanna á meðan Íslendingar skemmtu sér.

Reykjavík var ein þeirra borga sem tóku þátt í átakinu en stuttu áður hafði komið fram í skýrslu frá lög­regl­unn­i á höfuðborg­ar­svæðinu að 77% kvenna upp­lifa sig óör­ugg­ar í Reykja­vík. Alls hétu borgaryfirvöld 22ja borga víðs vegar um heiminn því að auka öryggi í borginni sinni í tilefni af átakinu. Átökin voru unnin í samstarfi við borgaryfirvöld og frjáls félagasamtök á hverjum stað. Á Íslandi var herferðin unnin af Tjarnargötunni í samstarfi við Reykjavíkurborg og styrkt af Símanum.

Ofbeldi gegn konum, stúlkum og börnum í almenningsrýmum er heimsfaraldur. Rannsóknir á vegum Sameinuðu þjóðanna sýna að konur sem búa á þéttbýlissvæðum eru tvöfalt líklegri til að verða fyrir ofbeldi. Þá er vandinn sérstaklega stór í fátækustu löndum heims. Meira að segja í öruggustu borgum heims eins og Reykjavík verða konur fyrir ofbeldi af ýmsu tagi. Í öðrum borgum er slíkt ofbeldi daglegt brauð sem hamlar konum að lifa eðlilegu lífi eins og að ferðast til og frá vinnu, ganga í skóla eða eiga sér félagslíf. Aldur, samfélagsstaða og klæðaburður hefur engin áhrif á hvort konur eða stúlkur verði fyrir kynferðisofbeldi eða áreitni á opnum svæðum.

Af hverju vinnur UN Women að því að gera borgir öruggari?

  • Ein af hverjum þremur konum í heiminum hefur þurft að þola ofbeldi. Ein af hverjum fimm þurft að þola kynferðislegt ofbeldi.
  • 99,3% kvenna og stúlkna á þéttbýlissvæðum í Egyptalandi hafa upplifað kynferðislega áreitni og um helmingur þeirra verður fyrir áreitni daglega.
  • 95% kvenna í Nýju Delí á Indlandi upplifa sig ekki öruggar á götum úti. 73% þeirra upplifa ekki einu sinni öryggi í sínu nánasta umhverfi.
  • Um 70% íslenskra kvenna upplifa sig óöruggar í miðborg Reykjavíkur að næturlagi.

Hér má lesa um verkefni UN Women í Nýju Delí, Port Moresby, Kaíró,  Rio de Janeiro og Mexíkóborg. Hægt er að taka þátt í þessari uppbyggingu með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili samtakanna.

Related Projects